Sá síðasti

Þá er komið að því þetta er síðasti dagurinn minn í fríi þetta sumarið. Er ekki enn búin að ákveða hvernig ég ætla að nota hann en ætti að gera eitthvað í sambandi við allan hreina þvottinn minn. Það er víst ekki nóg að vera dugleg að þvo það þarf að ganga frá honum líka og það virðist vera einstaklega erfitt fyrir mig þessa dagana. Ég hef aftur á móti verið nokkuð dugleg að lesa í fríinu. Ég mæli með nokkrum góðum bókum eins og Flugdrekahlauparanum, Skugga vindsins, Viltu vinna milljarð, Híbýli vindanna (lét loksins verða af því að lesa hana) og nú er á náttborðinu Hringur Tankados eftir Dan Brown, hún lofar nokkuð góðu. En þó bókmenntir séu af hinu góða þá er alvara lífsins að taka við eftir fríið og byrjar með skutli eldra barnsins á æfingu í dag og þar sem æfingarnar eru ekki í hverfinu þýðir það ágæta keyrslu alla daga til skiptist með börnin ég lít þó á þetta sem góða fjárfestingu að þau séu í íþróttum sem þau hafa gaman af og í alveg ágætum félagsskap. Sumarfríið hjá þeim er víst að taka enda líka og ekki nema tvær vikur eftir fram að skólasetningu. Í heildina hefur sumarið verið gott hjá okkur þó að bæta eigi ýmislegt upp næsta sumar sem ekki var gert þetta árið. En endir á sumri þýðir líka að allt félagsstarf byrjar og ekki hefur mér enn tekist að losna úr öllum þeim stjórnum sem ég ætlaði mér, það verður verkefni vetrarins að finna mér staðgengla í það. Það fylgir því bara allt of mikil vinna að vera í fjórum stjórnum auk annarra félagsstarfa og sinna börnum og búi og 150% vinnu sem er ansi krefjandi. Það þýðir bara að eitthvað gefur eftir ef ekkert er að gert. Nú er mál að linni og ég hef sett mér þau markmið að sitja bara í tveimur stjórnum eftir þennan vetur. Nú þarf víst að drífa sig og koma liðinu í sturtu og hugsa um að koma sér út úr húsi en þó ekki fyrr enn eftir eins og einn góðan kaffibolla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband